Glitnir lauk í dag við 500 milljóna evru skuldabréfaútgáfu. Kaupendur voru evrópskir fjárfestar og var mikil umframeftirspurn meðal fjárfesta að sögn Ingvars Ragnarssonar forstöðumans alþjóðlegrar fjármögnunar Glitnis. Upphæðin samsvarar til 44,6 milljarða íslenskra króna.

Að sögn Ingvars voru kjör útgáfunnar góð. Kjör útgáfunnar voru 33 punktum yfir evrópskum millibankavöxtum, Eurobor, sem jafngildir því að vera sex punktum yfir þriggja ára álagi á skuldatryggingar bankans á eftirmarkaði.

Þetta er í annað sinn á þessu ári sem Glitnir selur skuldabréf en fyrr í janúar lauk bankinn sölu skuldabréfa að virði 1,25 milljarðar Bandaríkjadala sem samsvarar til 88,5 milljarðar króna. Hinsvegar er um að ræða fyrstu opinberu Evrópu-útgáfu Glitnis í 18 mánuði en eins og kunnugt er hafa aðstæður á evrópskum fjármagnsmörkuðum verið erfiðar íslenku bönkunum undanfarið vegna neikvæðrar erlendar umfjöllunnar á síðasta ári.

"Óhætt er að  segja að við séum búin að opna Evrópumarkaðinn á nýjan leik og getum því beint sjónum okkar að Evrópu og evrópskum fjárfestum í auknum mæli á komandi misserum," segir Ingvar. Að hans mati eykur þetta möguleika bankans til fjármögnunar bankans töluvert og er því jákvætt skref.