Í dag, þriðjudaginn 21. september, kemur út bókin Viðskiptasérleyfi (franchise) ? rit um stofnun og rekstur sérleyfisfyrirtækja. Það eru Íslandsbanki og SVÞ ? Samtök verslunar og þjónustu sem gefa ritið út. Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mun flytja ávarp og veita fyrsta eintakinu viðtöku í útgáfuhófi, sem hefst kl. 16 í dag í Borgartúni 35, 6. hæð.

Einnig munu taka til máls Emil B. Karlsson, höfundur bókarinnar, Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, og Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri SVÞ.

Viðskiptasérleyfi hafa orðið æ algengari í verslun og þjónustu undanfarin ár og hefur eftirspurn eftir fróðleik um þau verið að aukast, en hingað til hafa engar leiðbeiningar verið gefnar út um þetta málefni hér á landi.

Viðskiptasérleyfi er talin sú aðferð sem algengust er í heiminum þegar fyrirtæki ákveða að færa út kvíarnar og sérleyfi ná sífellt til fleiri sviða atvinnulífsins.

Vonast er til þess að útgáfa rits um viðskiptasérleyfi verði til þess að auðvelda stofnun slíkra fyrirtækja og auðgi og efli um leið íslenskt atvinnulíf.