Félagið Net3, sem var stofnað í apríl síðastliðinn, sérhæfir sig í framþróun næstu kynslóðar internetsins og hefur fyrsta vara fyrirtækisins litið dagsins ljós. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fyrsta vara Net3, Token Express, var sett í loftið í beta-útgáfu í síðustu viku. Um er að ræða tól sem aðstoðar kaupendur á minni rafmyntum að forðast svik á vefnum. Token Express byggir á notkun gervigreindar og „sýndar”viðskipta.

Ólafur Helgi Jónsson framkvæmastjóri Net3 segir í tilkynningu að framtíðarsýn félagsins með Token Express sé að skapa tól sem reynir eftir fremsta magni að benda á og greina galla í snjallsamningum og viðskiptasögu.

„Með því er hægt að gera kaupendum grein fyrir öðrum hættum sem vanir aðilar eða gervigreind og kauphermir okkar getur séð. Þannig getum við hjálpað þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í kaupum á rafmynt og mögulega komið í veg fyrir tekjutap, svik og pretti,“ segir Ólafur Helgi.

Net3 mun á næstu misserum þróa frekari vörur í bland við það að aðstoða einstaklinga og fyrirtæki sem vinna nú í vöruþróun fyrir Web3 hérlendis. Félagið vinnur nú í fjármögnun á móðurfélagi jafnt sem fyrstu undirverkefnum en hjá félaginu starfa þeir Hilmar Jónsson, gagnasérfræðingur og Jakob Helgi Jónsson forritari auk Ólafs Helga. Hönnunarstofan Jökulá er í eigendahópi og sjá þ.a.l. um viðmótshönnun og notendaupplifun allra verkefna Net3 undir stjórn Björgvins Péturs Sigurjónssonar.

Stjórnarmenn félagsins eru Einar Ben og Einar Gústafsson, sem báðir hafa áralanga reynslu af uppbyggingu og stjórnun fyrirtækja.

Ólafur Helgi Jónsson, framkvæmdastjóri Net3:

„Fjöldi fyrirtækja á heimsvísu hefur nú þegar stigið inn í Web 3.0 og sem dæmi má nefna aðila á borð við Nike, Adidas, Tesla. Risafyrirtæki á borð við Facebook (Meta) hafa sömuleiðis umturnað rekstri sínum, ásýnd og vörumerki til að betur undirbúa sig fyrir komandi tíma svo við erum spenntir fyrir komandi áskorunum.”