Seðlabanki Kína hefur ákveðið að hækka vexti í fyrsta skipti í 9 ár til þess að draga úr verðbólguhraða og þenslu, en að undanförnu hefur hagvöxtur í Kína verið einn sá mesti í heiminum. Að vísu dró örlítið úr hagvexti þar eystra á milli annars og þriðja ársfjórðungs, en hann mældist 9,1% á þriðja ársfjórðungi eftir að hafa mælst 9,6% á öðrum. Verðbólgan mældist 5,2% í september eftir að hafa náð 7 ára hámarki, eða 5,3% í bæði júlí og ágúst.

Vaxtahækkunin tekur gildi á morgun og verða útláns- og innlánsvextir til eins árs hækkaðir um 0,27%, eða í 5,58% og 2,25%. Seinast þegar Seðlabankinn hækkaði vexti, eða í júlí 1995, fór hagvöxtur í Kína úr 12,8% árið 1994 niður í 7,1% árið 1999. Hlutabréf í Bandaríkjunum lækkuðu í kjölfar tilkynningarinnar um vaxtahækkunina þar sem minni hagvöxtur í Kína gæti dregið úr hagvexti víðast hvar í heiminum. Helst voru það hlutabréf hráefnaframleiðenda sem lækkuðu, en Kína er nú orðið einn stærsti kaupandi á hráefnum á alþjóðamarkaði. Hlutabréf Alcoa, sem er stærsti álframleiðandi í heimi og reysir nú álver í Reyðarfirði, lækkuðu til að mynda um 3%. Þá lækkaði olíuverð í New York um 2,2% í kjölfar tilkynningarinnar eftir að hafa lækkað um 4,9% í gær þegar skýrsla var birt sem sýndi að olíubirgðir Bandaríkjanna hefðu aukist umfram væntingar. Verð tunnu af hráolíu í New York stendur nú í $51,29, en í byrjun vikunnar náði það hátindi í $55,67.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.