Fyrsta verðlækkunin hefur orðið vegna fríverslunarsamningsins milli Íslands og Kína. Í kjölfar gildistöku samningsins munu allar Clicgear kerrusendingar til smásöluaðila frá og með 8. júlí verða afgreiddar án tolls sem lagður hefur verið á áður. Þetta mun þýða um 10% lækkun á leiðbeinandi smásöluverði Clicgear golfkerra eftir 8. júlí.

Til dæmis er núverandi leiðbeinandi smásöluverð á Clicgear 3,5+ 3ja hjóla 39.900 kr. en mun verða 35.900 kr.

Núverandi leiðbeinandi smásöluverð á Clicgear 8,0 4ja hjóla er 49.900 kr. en mun verða 44.900 kr.

Björn L. Þórisson hjá Marka ehf. sem er innflutningsaðili Clicgear á Íslandi, segir Clicgear kerrurnar vera mjög vinsælar, en hátt í þúsund kerrur seljist á ári hverju. Hann segist taka fríverslunarsamningnum fagnandi  og telur að þetta muni hafa góð áhrif á viðskipti. Hann segir þá hafa auglýst þessar breytingar á Facebook og að allir virðist mjög ánægðir. Hann segist þó ekki eiga von á öðrum verðlækkunum fyrr en í haust.