Tryggingamiðstöðin stefnir að því að gefa út víkjandi skuldabréf fyrir allt að tvo milljarða króna á árinu, en þetta mun verða fyrsta útgáfa víkjandi skuldabréfs á Íslandi frá hruninu 2008. Skuldabréfið verður skráð á markað og hefur verið samið við Arcica Finance um ráðgjöf við útgáfu og sölu á bréfinu.

„Ástæða þess að við förum þessa leið í fjármögnuninni er að víkjandi lán telja inn í eiginfjárþáttinn. Við höfum verið að leita að hagkvæmustu samsetningu eigin fjár fyrirtækisins og víkjandi lán eru ódýrara fjármagn en hlutafé, segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM í samtali við Viðskiptablaðið.

Alþjóðlegar reglur gilda um gjaldþol vátryggingafélaga á EES-svæðinu og munu endurskoðaðar reglur, Solvency II, taka gildi þann 1. janúar á næsta ári. Ekki er vitað nákvæmlega hvað í þeim mun felast varðandi víkjandi lán, en þó mun sú fjármögnun sem er hluti af eiginfjárþættinum fyrir gildistöku þeirra verða það áfram. Í ljósi þessarar óvissu hefur nokkur fjöldi erlendra tryggingafélaga þegar gefið út víkjandi skuldabréf eða mun gera það á þessu ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .