„Fyrsta launaða vinnan mín var við söltun á síld á Mánaplaninu á Norðfirði árið 1962. Þá var ég 10 ára gamall. Ég hef verið á vinnumarkaði síðan ég var 10 ára gamall, með hléum, og hef því verið á vinnumarkaði í um og yfir 50 ár,“ segir Vilhjálmur Bjarnason um sína fyrstu vinnu.

Þrettán ára var hann sendill hjá Héðni og í apríl 1966, þá að verða 14 ára, seldi hann bækur fyrir Almenna bókafélagið. „Síðan seldi ég egg, við gengum í hús á föstudagskvöldum og laugardagseftirmiðdögum. Ég seldi 40 kíló á viku. Þá voru egg munaðarvara og ég seldi þau fyrir bónda austur í Ölfusi.“