Fyrsti ársfundur Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (NMÍ) var haldinn í dag á Hilton Reykjavík Nordica Hótel. Fundurinn bar yfirskriftina „Sköpun – kraftur – fjölbreytni”.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hélt ávarp við setningu fundarins auk þess sem fjöldi starfsmanna hélt fyrirlestur um ýmis málefni sem tengjast nýsköpun og atvinnulífinu.

Að ársfundi loknum hófst málstofa sem bar heitið „Starfrænar smiðjur – Fellum niður girðingar í nýsköpun”.

Þar fjallaði Neil Gershenfeld, prófessor og framkvæmdastjóri Center for Bits and Atoms við bandaríska háskólann MIT, um stafrænar smiðjur (e. Fab Lab). Stafræn smiðja er útbúin tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er og mun NMÍ setja upp slíka smiðju í Vestmannaeyjum síðar á árinu.

Á heimasíðu NMÍ segir að henni sé ætlað að gefa einstaklingum og fyrirtækjum tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.

Nánar verður fjallað um ársfundinn í Viðskiptablaðinu eftir helgi.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands var stofnuð 1. ágúst 2007 við sameiningu Iðntæknistofnunar Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins. Nýsköpunarmiðstöðin heyrir undir Iðnaðarráðuneytið og starfar eftir lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun (nr. 75/2007).

Forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvarinnar er Þorsteinn Ingi Sigfússon og starfsmenn eru um 90 talsins.