Bjarni Bjarnason tók við sem forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur þann 1. mars 2011 og hann man vel eftir fyrsta deginum, sérstaklega í ljósi þess að fjárhagsstaða fyrirtækisins var erfið og engir erlendir bankar voru tilbúnir að lána Orkuveitunni samkvæmt Bjarna.

„Það var stjórnarfundur um morguninn og eftir hádegi var fundur með sendinefnd frá Norræna fjárfestingabankanum. Þá sátum við á þriggja tíma fundi og það var alveg ljóst að það var ekki hægt að ræða lántöku við þá. Kennitölur Orkuveitunnar voru með þeim hætti að okkur yrði aldrei hleypt inn í lánanefndarherbergið til þess að kynna málið,“ segir Bjarni en viðbrögð annarra banka voru á svipuðum nótum.

„Þetta voru skýr skilaboð og fínt að vita það á fyrsta degi. Það var litið á NIB sem líklegasta bankann og þar með var fokið í öll skjól. Við kynntum þeim svo fyrstu hugmyndir um breytingar og að við værum að vinna að áætlun. Þeir voru ánægðir með það og þegar hún lá fyrir þá fórum við á fund allra banka og það voru alltaf sömu viðbrögðin: „Fyrirtækið er í mjög alvarlegri stöðu. Fjárhagslegar kennitölur eru ónothæfar sem grunnur að frekari lánum til ykkar. Okkur líst mjög vel á að þið séuð komnir með alvöru áætlun sem virðist vel undirbúin. Gangi ykkur vel,“ segir Bjarni þegar hann rifjar upp afstöðu erlendra banka til lánveitinga.