Austurríski bankinn, Raiffeisen Bank International, hefur gefið það út að hann ætli að opna útibú í Íran sem allra fyrst. Bankinn mun þá verða fyrstur erlendra banka til að opna útibú í Íran eftir að efnahagsþvingunum var aflétt á landinu.

Peter Lennkh, stjórnarmaður bankans segir í viðtali við austurríska dagblaðið Wirtschaftsblatt að undirbúningur sé þegar hafinn. Hann sagði að bankinn hefði átt í miklum viðskiptum við landið áður en efnahagsþvingarnirnar voru settar á landið og að bankinn vilji hefja þau aftur.

Margir bankar eru þó varkárir vegna afstöðu Bandaríkjastjórnar gagnvart fyrirtækjum sem hafa átt í viðskiptum í Íran. Árið 2014 sektuðu Bandaríkin franska bankann, BNP Paribas um 8,9 milljarða dala, eða um 1.150 milljarða króna og þýska bankan Deutsche Bank fyrir um 258 milljónir dala, eða 33,5 milljarða króna.