Fyrsti kísilmálmurinn, sem framleiddur er í nýrri verksmiðju United Silicon í Helguvík, var fluttur með Lagarfossi frá Helgavíkurhöfn í gærkvöldi. Þá voru í heildina fluttir 12 gámar með ríflega 300 tonna farmi af kísilmálmi lestaðar um borð í Lagarfoss sem sigldi með farminn áleiðis til Rotterdam.

Haft er eftir Magnúsi Garðarssyni, stjórnarmanni United Silicon, að þetta séu stór tímamót hjá United Silicon, enda fyrsti kísilmálmurinn sem framleiddur er á Íslandi. „Um helmingurinn af öllum kísli, sem við munum framleiða, fer áfram til framleiðslu á polysilicon, sem er ofurhreinn kísilmálmur sem einungis er notaður í sólarrafhlöður. Þær eru m.a. settar upp á húsþök víða um heim og framleiða viðvarandi græna orku. Þannig er orðið að veruleika eitt aðalmarkmið okkar, sem er að flytja út græna orku Íslands til framleiðslu á enn grænni orku erlendis,“ er jafnframt haft eftir Magnúsi.

Forstjóri United Silicon, Helgi Þórhallsson, sagði við tilefnið að starfsmenn United Silicon hafi unnið hörðum höndum nótt sem nýtan dag til að koma verksmiðjunni í gang.

Ljósbogaofninn Ísabella

„32 megavatta ljósbogaofn, sem félagið hefur gefið nafnið Ísabella, framleiðir kísilmálminn við 1900 gráðu hita við efnabreytingu af kvartsgrjóti. Í fyrsta áfanga verða framleidd 22.900 tonn í ofninum. United Silcion hefur fengið starfsleyfi fyrir alls fjórum ofnum og er verksmiðjan hönnuð með þessa stækkun í huga. Miðað við fjóra ofna verður framleiðslugetan um 90.000 tonn á ári,“ segir að lokum í tilkynningu.