Úrvalsvísitalan lækkaði um 20% á fyrsta ársfjórðungi. Það er mun meiri lækkun en hjá þeim erlendu vísitölum sem greiningardeild Kaupþings horfir til, meðaltals lækkun þeirra var 13,5% á tímabilinu. Ástæðan fyrir því að íslenski markaðurinn fær mun verri útreið er að fjármálafyrirtæki mynda yfir 90% Úrvalsvísitölunnar og lausafjárþurrð á fjármálamörkuðum hefur komið hvað harðast við þau.

Ársfjórðungurinn var viðburðaríkur, bendir greiningardeild Landsbankans á. Skuldatryggingaálag á íslensku bankana reis upp úr öllu valdi, sem hafði áhrif á gengi þeirra. Stýrivaxtalækkanir í Bandaríkjunum höfðu jafnframt áhrif hingað heim, sem og stýrivaxtahækkanir hér heima. Fréttir af afskriftum og slökum árangri fjármálafyrirtækja erlendis, til dæmis af falli Bear Sterns, höfðu einnig áhrif. Þá hafði endurmat á lánshæfi ríkisins og banka sín áhrif, segir hún.

Í Viðskiptablaðinu á morgun er úttekt á fyrsta ársfjórðungi á fjármálamarkaði í máli og myndum.

Áskrifendur geta frá klukkan 21:00 í kvöld lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .