Fulltrúar Starfsgreinasambandsins, Flóabandalagsins og Samtaka atvinnulífsins funduðu með ríkissáttasemjara í dag en kjaradeilu þessara aðila var vísað til hans í síðustu viku. Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að á fundinum hefðu menn fyrst og fremst verið að fara yfir viðræðurnar fram undan og hvernig nálgast ætti þær. Næsti fundur deilenda var boðaður á miðvikudag. Starfsgreinasambandið og Flóabandalagið eru fyrstu félögin sem hafa vísað deilu sinni til sáttasemjara.

Viðræður annarra félaga og Samtaka atvinnulífsins eru að komast á fullt skrið. Á vef SA segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, að Samtökin vinni að kjarasamningunum með heildarhagsmuni atvinnulífsins og þjóðarinnar að leiðarljósi. "Kjaraviðræður hafa oft farið fram með þeim hætti að skrefin eru stigin ýmist áfram eða aftur á bak og jafnvel í hringi. Á endanum ná samningsaðilarnir þó yfirleitt takti eins og í góðum dansi sem hefur farsælan endi," segir á vefnum.