Stjórnarskipti verða á morgun á Bessastöðum og verður síðasti fundur fráfarandi ríkisstjórnar með forseta haldinn þar klukkan ellefu. Kom þetta m.a. fram í máli Ólafs Ragnars Grímssonar á Bessastöðum rétt í þessu, en fundi hans með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins og verðandi forsætisráðherra, er lokið.

Fyrsti fundur nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks með forseta verður svo haldinn klukkan þrjú á morgun.

Ólafur sagðist ánægður með að búið sé að mynda nýja ríkisstjórn. Spurður um þau ummæli sem höfð voru eftir honum í erlendum fjölmiðlum um að hann hefði falið Sigmundi Davíð stjórnarmyndunarumboð m.a. vegna stefnumála flokksins sagðist hann ekki tjá sig um túlkanir manna á því sem hann segði í fjölmiðlum. Hann hefði við ákvörðun sína tekið mið af þingstyrk, árangri flokkanna í kosningum og eftir viðræður við formenn allra flokka sem fengu þingmenn kjörna í kosningunum.