Í samkomulagi um samstarf Íslands og Noregs um kaup og rekstur nýrra langdrægra björgunarþyrla, sem Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra og Knut Storberget dómsmálaráðherra Noregs skrifuðu undir í Reykjavík 30. nóvember 2007, er m.a. gert ráð fyrir samstarfsráði beggja landa.

Ráðið kom saman til fundar hér í Reykjavík 3. september 2008.

Þetta kemur fram á vef dómsmálaráðuneytisins.

Þar kemur fram að meginverkefni þessa fyrsta fundar ráðsins var að fara yfir þróun og núverandi stöðu allra undirbúningsferla, og samræma þau störf sem fara fram í báðum löndum.

Sameiginleg vinna við undirbúning beggja landa er hins vegar á vegum svonefnds NAWSARH-verkefnis í Stavanger ( www.nawsarh.dep.no ).

Þá kemur fram að sameiginleg útboðslýsing verður gefin út á árinu 2009. Nýjar, langdrægar björgunarþyrlur eiga að vera komnar í fullan rekstur í báðum löndum eigi síðar en árið 2015. Undirbúningur útboðs felur í sér umfangsmikil og flókin verkefni, bæði á Íslandi og í Noregi, en verkefninu miðar áfram í samræmi við ákvæði samkomulags þeirra.

Í forsvari fyrir sendinefnd Noregs var Mette Stangerhaugen, skrifstofustjóri björgunar- og neyðaráætlana í norska dómsmálaráðuneytinu, en í forsvari fyrir fulltrúum Íslands var Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri dómsmála- og löggæsluskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.