Á morgun verður fyrsti græni leigusamningurinn á Akureyri undirritaður. Það er hið sögufræga hús KEA, á horni Kaupvangsstrætis og Hafnarstrætis, sem mun vera leigt út í svokallaðri grænni leigu, að þvi er fram kemur á vef Akureyri vikublaðs.

Reitir fasteignafélag er eigandi hússins en Markaðsstofa Norðurlands, Eyþing, Vaðlaheiðargöng og Ferðamálastofa hafa flutt starfsemi sína þangað og munu á morgun undirrita samning um græna leigu. Verður þá húsið skilgreint sem grænn reitur.

Í fréttinni kemur fram að græn leiga byggist á samkomulagi milli eiganda og leigutaka um að reka húsnæðið með vistvænum hætti. Græn leiga tekur m.a. til endurvinnslu og sorpmála, innkaupa á rekstrar- og byggingarvörum og notkunar rafmagns og hitaveitu. Þótt grænir leigusamningar séu nýlunda á Akureyri þá hafa þeir færst í vöxt erlendis, Í kjölfar aukinnar áherslu á umhverfismál.