Hlutabréf í bandaríska netrisanum Facebook voru seld í almennu hlutafjárútboði fyrir skráningu á markað í gær fyrir 38 Bandaríkjadali á hlut. Þetta er í samræmi við efri mörk þeirra sem pælt hafa í verðmiðanum á fyrirtækinu. Þessu samkvæmt er markaðsverðmæti Facebook 104 milljarðar dala, jafnvirði 13.300 milljarða íslenskra króna. Til samanburðar var verg landsframleiðsla Íslands 1.630 milljarðar króna í fyrra og verðmæti Faceboook því á við áttfalda landsframleiðslu hér á landi. Viðskipti hefjast með hlutabréf Facebook á markaði í dag.

Fátt kom á óvart í útboðinu. Samkvæmt fregnum Boston Globe af málinu var 421 hlutur í Facebook seldur í því fyrir 16 milljarða dala. Þá voru 25% fleiri bréf seld í netrisanum þar sem búist var við mikilli eftirspurn eftir þeim.

Helstu kaupendur að hlutabréfum Facebook voru bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs og sprotafjárfestar á borð við Accel Partners

Ekki eru þó allir jafnt spenntir yfir útboðinu en Boston Globe hefur eftir David Menlow, framkvæmdastjóra hjá fyrirtækinu IPO Financial.com, sem fylgist grannt með nýskráningum á hlutabréfamarkað, að verðmatið á Facebook sé alltof hátt. Hann varar við því að hækki gengi hlutabréfanna ekki mikið í fyrstu viðskiptunum í dag þá sé hætt við að fjárfestar verði fyrir vonbrigðum og selji þeir hluti sína með þeim afleiðingum að gengi fari undir upphafsgengið á fyrsta viðskiptadegi. Á hinn bóginn telur hann hlutabréfin góða langtímafjárfestingu.