Fyrsti kröfuhafafundur Byrs eftir undirritun samkomulags um að kröfuhafar taki yfir bankann var haldinn á Grand Hóteli í gær. Þar var gerð grein fyrir afstöðu til krafna í bú fyrirrennara bankans, Byrs sparisjóðs.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að þegar sé búið að samþykkja afar fáar kröfur þar sem mörgum kröfum hafi verið vitlaust lýst. Þá hafa stofnfjáreigendur sparisjóðsins lýst kröfum og vilja að þær verði flokkaðar sem almennar.

Samkomulagið sem undirritað var í október felur í sér að 94,8% eignarhlutur í Byr verður í vörslu og umsjón fjármálaráðuneytisins, í samstarfi við slitastjórn Byrs sparisjóðs. Eignarhlutnum verður síðan komið í hendur kröfuhafa á næsta ári. Þá munu þýski bankinn Bayerische Landesbank og austurríski bankinn Raiffesen Zentralbank Österreich eiga um helming í Byr hf. Íslenska ríkið mun eiga 5,2% hlut eftir að ferlinu lýkur.