Að sögn Gunnars Smára Egilssonar, forstjóra Dagsbrúnar Media, útgáfufélags danska fríblaðsins Nyhedsavisen, var rekstrarniðurstaða fyrsta mánaðarins í rekstri blaðsins betri en gert var ráð fyrir.

Bæði var það að tekjur voru heldur meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og gjöld minni. Gunnar Smári sagði að áfram yrði unnið að því að koma blaðinu í þá markaðsstöðu sem að er stefnt. Hann segir að það muni taka tvö til þrjú ár að ná jafnvægi í rekstri Nyhedsavisen og þær áætlanir væru óbreyttar.

Ný könnun Gallup í Danmörku sýnir að Nyhedsavisen er í öðru sæti þeirra fríblaða sem borin eru í hús í Danmörku. Lesendur 24timer reyndust vera 395 þúsund talsins, 161 þúsund manns lásu Nyhedsavisen og 150 þúsund mans lásu Dato. Urban og Metro eru einnig fríblöð en þeim er ekki dreift í hús og sagðist Gunnar Smári halda að þau væru gefin út vegna veikleika annara blaða í aldurshópum undir 25 ára aldri. Þau blöð væru hins vegar ekki merkilegir samkeppnisaðilar að öðru leyti.

Gunnar Smári taldi þessa niðurstöðu Gallup vera í samræmi við það sem þeir hefðu átt von á. Það hefði komið í ljós með haustinu að það væri töluverður munur á uppbyggingu 24timer og Dato þar sem 24timer væri meira alvöru blað en það hóf að koma út í ágúst eða ríflega mánuði á undan Nyhedsavisen sem hóf göngu sína 6. október.

"Ég reiknaði sjálfur ekki með því að við næðum 24timer í fyrstu könnun og raunverlulega held ég að við munum fyrr ná ýmsum öðrum blöðum en þeim ef þeir halda áfram að byggjast upp. Ég veit hins vegar ekki hvort það er stefna þeirra eða ekki eða þeir séu bara ánægðir með þennan árangur. Ég held að það sé viðunandi að fara fram úr Dato í fyrstu könnun og svo tökum við þetta stig af stigi," segir Gunnar.