Að sögn Gunnars Smára Egilssonar, forstjóra Dagsbrúnar Media útgáfufélags danska fríblaðsins Nyhefsavisen, var rekstrarniðurstaða fyrsta mánaðarins í rekstri blaðsins betri en gert var ráð fyrir. Bæði var það að tekjur voru heldur meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og gjöld minni. Gunnar Smári sagði að áfram yrði unnið að því að koma blaðinu í þá markaðsstöðu sem að er stefnt. Hann segir að það muni taka tvö til þrjú ár að ná jafnvægi í rekstri Nyhedsavisen og þær áætlanir væru óbreyttar.

Ný könnun Gallup í Danmörku sýnir að Nyhedsavisen er í öðru sæti þeirra fríblaða sem borin eru í hús í Danmörku. Lesendur 24timer reyndust vera 395 þúsund talsins, 161 þúsund manns lásu Nyhedsavisen og 150 þúsund mans lásu Dato. Urban og Metro eru einnig fríblöð en þeim er ekki dreift í hús og sagðist Gunnar Smári halda að þau væru gefin út vegna veikleika annara blaða í aldurshópum undir 25 ára aldri. Þau blöð væru hins vegar ekki merkilegir samkeppnisaðilar að öðru leyti.

Gunnar Smári taldi þessa niðurstöðu Gallup vera í samræmi við það sem þeir hefðu átt von á. Það hefði komið í ljós með haustinu að það væri töluverður munur á uppbyggingu 24timer og Dato þar sem 24timer væri meira alvöru blað en það hóf að koma út í ágúst eða ríflega mánuði á undan Nyhedsavisen sem hóf göngu sína 6. október. "Ég reiknaði sjálfur ekki með því að við næðum 24timer í fyrstu könnun og raunverlulega held ég að við munum fyrr ná ýmsum öðrum blöðum en þeim ef þeir halda áfram að byggjast upp. Ég veit hins vegar ekki hvort það er stefna þeirra eða ekki eða þeir séu bara ánægðir með þennan árangur. Ég held að það sé viðunandi að fara fram úr Dato í fyrstu könnun og svo tökum við þetta stig af stigi."

Markmiðið að verða mest lesna blaðið í Danmörku

Gunnar Smári sagði að það væri áfram markmið Nyhedsavisen að verða mest lesna blaðið í Danmörku og þá ekki bara meðal fríblaða heldur allra blaða. "Það mun taka okkur einhvern tíma -- hvort það verða 9 mánuðir eða 18 mánuðir er erfitt að segja, það fer dálítið eftir því hvernig hinir haga sér. Við þekkjum það frá Íslandi að lesturinn byggist upp hægt og bítandi. Fyrst þegar svona blað kemur inn á heimilið þá er það ekki lesið nema á sumum heimilum en svo byggist það upp." Gunnar Smári sagðist þekkja það frá uppbyggingu Fréttablaðsins að lesturinn byggðist upp innan dreifikerfisins og það tæki lesendur nokkurn tíma að læra á miðilinn. Það væri að gerast í Danmörku, rétt eins og á Íslandi.

Markmið Nyhedsavisen er eins og áður sagði að verða mest lesna blað Danmerkur og sagðist Gunnar Smári gera ráð fyrir að það gerðist næsta vor eða næsta haust. "Við stefnum á þann markað þar sem flestir eru eða aldurshópinn 25 til 50. Við teljum að við náum kannski forystu í þessum hópi fyrr. Við sjáum það í lestrarkönnunum að gríðarlegt fall varð á lestri gömlu blaðanna, áskriftarblaða og "tabloid"-blaða, í september þegar 24 timer og Dato komu inn á markaðinn." Nýjar tölur eru væntanlegar í nóvember og sagði Gunnar Smári að áhugavert væri að sjá þær.

"Þetta snýst um það að vera í fyrsta sæti en ekki nákvæmlega hve margir lesa okkur. En við getum rekið þetta þó við náum ekki fyrsta sæti innan 9 mánaða eða 18 mánaða. Stefnan er hins vegar á 1. sæti, við höfum verið þar og viljum vera þar." Gunnar Smári sagði að einnig skipti máli hvað aðferðafræði væri notuð við að mæla lestur. "Við teljum okkur vera með miklu betra blað en 24timer og við byggjum það á því mati sem við fáum út úr könnunum. Við teljum okkur eiga að geta náð miklu betri lestri en þeir."

Gunnar Smári sagðist halda að enn væru þeir ekki búnir að sjá öll viðbrögð samkeppnisaðilanna. Þannig hefði Metro hafið síðdegisútgáfu sem ekki var séð fyrir en hann taldi ólíklegt að hún ætti eftir að ganga. Sömuleiðis hefðu 24timer farið inn á svið sem væri í samkeppni við aðra útgáfu Jótlandspóstsins. Hann sagðist ekki átta sig á því hve langt yrði gengið inn á þá braut eða hve lengi það myndi vara.

Stefnt á dreifingu á 700 þúsund heimili

Að sögn Gunnars Smára hefur dreifing á Nyhedsavisen gengið í samræmi við áætlanir. Frá upphafi var gert ráð fyrir ákveðnum vandamálum enda dreifingin flókin aðgerð. Snemma á næsta ári er gert ráð fyrir að dreifingin nái til 500 þúsund heimila, sex daga vikunnar. "Á heildina höfum við ekki orðið fyrir meiri erfiðleikum en við reiknuðum með." Áætlanir gera ráð fyrir að dreifingin nái til um 700 þúsund heimila og að 200 þúsund eintökum til viðbótar verði dreift með öðrum hætti. Þannig er gert ráð fyrir dreifingu upp á um 900 þúsund eintök. Dreifing umfram það er ekki áætluð en Gunnar Smári sagði að endanleg dreifing myndi markast af því sem þeir teldu nauðsynlegt til að ná markmiðum um markaðsstöðu í samanburði við aðra. Til þessa væru þeir ánægðir með hvernig til hefði tekist með dreifinguna. "Kerfið sjálft virkar mjög vel. Það kom í ljós að blaðið virkar vel og því er fram undan að stækka dreifisvæðið og halda blaðinu góðu þannig að fólk ánetjist blaðinu hægt og bítandi."

Gunnar Smári sagði að viðbrögð auglýsenda væru nokkurn veginn eins og búist hefði verið við. Þeir væru greinileg að bíða eftir því hverju fram yndi og þyrftu greinilega tíma til að prófa blaðið. "Mér finnst blaðinu almennt vel tekið meðal auglýsenda og betur en var með Fréttablaðið á sínum tíma."

Á vegum Dagsbrúnar Media er verið að skoða sjö önnur markaðssvæði þar sem talið er líklegt að hægt sé að hefja rekstur fríblaðs. Um næstu áramót er ætlunin að fækka í þessum hóp niður í þrjú markaðssvæði og í framhaldinu stofna undirbúningsfélög fyrir útgáfu í viðkomandi löndum. Að sögn Gunnars Smára er gert ráð fyrir að hefja útgáfu einhversstaðar á þessum þremur svæðum strax á næsta ári. "Það þurfa nokkur atriði að falla saman. Við þurfum að geta leyst dreifingarmál og prentun og um leið verðum við að meta hve árennilegt er að ráðast inn á viðkomandi markaði.