Olíufélagið Atlantic Petroleum, sem skráð er í Kauphöllina, skilaði 8,3 milljóna danskra króna rekstrarhagnaði, EBIT, á fjórða ársfjórðungi í fyrra, að því er segir í afkomutilkynningu. Þetta er í fyrsta sinn í sögu félagsins sem það skilar rekstrarhagnaði, enda var fjórðungurinn sá fyrsti sem félagið fór að framleiða olíu eftir margra ára olíuleit. Félagið var hins vegar rekið með 54 milljóna króna tapi eftir skatta á fjórðungnum enda voru vaxtagreiðslur og annar fjármagnskostnaður upp á 116 milljónir.

90 m.DKK tap eftir skatta

Fyrir árið í heild var EBIT neikvætt um 5,6 milljónir, sem er mun minni rekstrarhalli en árið áður þegar rekstrarafkoman var neikvæð um rúmar 50 milljónir. Tap eftir skatta fyrir allt árið nam tæpum 90 milljónum danskra króna.

Í tilkynningu er haft eftir Wilhelm Petersen forstjóra að tekjur vegna nýhafinnar olíuvinnslu færi félaginu mikilvægt sjóðstreymi þrátt fyrir lækkandi verð og setji það í sterka stöðu til að njóta ávinnings af áframhaldandi samþættingu í olíuleitargeiranum.

Gert ráð fyrir rekstrarhagnaði í ár

Atlantic Petroleum reiknar með að framleiða 800-900 þúsund tunnur á þessu ári og gerir ráð fyrir rekstrarhagnaði upp á 20-25 milljónir danskra króna. Þessar áætlanir byggja á því að olíuverð verði 45 dalir á tunnu, en hækkun olíuverðs um 5 dali mundi meira en tvöfalda áætlanir um rekstrarhagnað félagsins.