Sýknudómur Íslands í Icesave-málinu er fyrsta málið sem stjórnvöld vinna fyrir EFTA-dómstólnum. Fjallað er um málið í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka. Þar kemur m.a. fram að ESA hefur höfðað 13 dómsmál á hendur Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum í gegnum tíðina.

Greiningardeildin segir að niðurstaðan í dag eyði mikilvægri óvissu sem ríkt hafi í íslensku efnahagslífi vegna Icesave-deilunnar. Deildin segir orðrétt:

„Þrátt fyrir að erfitt sé að meta í krónum talið hversu miklum skaða Icesave málið hefur valdið þá er ljóst að íslenska ríkið hefur orðið fyrir skaða. Tafir urðu m.a. á lánafyrirgreiðslum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) vegna málsins. Þá hefur ríkt óvissa síðustu árin um hugsanleg áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs (sem dæmi mat AGS í nóvember sl. að hugsanlegur kostnaður ríkissins vegna málsins gæti legið á bilinu ríflega 95 – 320 ma.kr. ef EFTA dómstóllinn hefði dæmt okkur í óhag),“ segir í Markaðspunktunum og bætt við að Icesave-málið hafi haft þau áhrif að lánshæfi ríkissjóðs hafi verið hársbreidd frá því að lenda í ruslflokki.