*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 16. september 2021 17:02

Fyrsti við­skipta­hraðall Norður­lands

Að baki viðskiptahraðlinum Vaxtarrými standa ný samtök sem vilja bæta nýsköpunarumhverfið á Norðurlandi.

Ritstjórn
Laugarmýri í Skagafirði.
Aðsend mynd

Í byrjun október fer af stað fyrsti viðskiptahraðallinn á Norðurlandi sem ber heitið Vaxtarrými. Að baki hraðlinum stendur Norðanátt, ný regnhlífarsamtök nýsköpunar á landsbyggðinni. Leitað er eftir fyrirtækjum og verkefnum sem eru komin af hugmyndastigi en umsóknarfresti í hraðalinn lýkur á mánudaginn, 20. september.

Hraðallinn fer að mestu leyti fram á netinu sem hentar frumkvöðlum á landsbyggðinni vel þar sem þau er staðsett á mismunandi svæðum á Norðurlandi. Jafnframt hittast teymin fjórum sinnum meðan á hraðlinum stendur á vinnustofum á völdum stöðum á Norðurlandi. Teymin munu hitta reynslumikla leiðbeinendur, frumkvöðla, fjárfesta og stjórnendur fyrirtækja á Norðurlandi, sitja vinnustofur og fræðslufundi og mynda sterkt tengslanet sín á milli.

Norðanátt er samstarfsverkefni stuðningsaðila í nýsköpunarumhverfinu á Norðurlandi en að verkefninu koma Eimur, SSNV, SSNE, Nýsköpun í norðri og RATA. Norðanátt leggur áherslu á nýsköpun á sviði sjálfbærni, orku, vatni og mat.

Í fréttatilkynningu samtakanna segir að Norðurland sé ríkt af auðlindum sem styðja við mat-, vatn- og orkutengda nýsköpun og þar eru einnig sterkur hópur frumkvöðla. Þetta endurspeglist meðal annars í árangri frumkvöðla af svæðinu í Matvælasjóði, en tæplega 30% úthlutunar sjóðsins í ár fer til frumkvöðla á Norðurlandi.

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu veitti Norðanátt styrk til að þróa verkefnið áfram en markmiðið er að vera með sjálfbært kerfi fyrir frumkvöðla sem verður síðan til verðmætasköpunar í samfélaginu. Norðanátt byggir á hringrás árlegra viðburða þar sem frumkvöðlar fá tækifæri til að þróa hugmyndir sínar, vaxa og ná lengra. Hringrásin samanstendur af lausnamóti, vinnusmiðju, viðskiptahraðli og fjárfestamóti.

Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps:

„Síðustu misseri hefur nýsköpun í matvælaframleiðslu og sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda vaxið fiskur um hrygg. Það er því sannarlega réttur tímapunktur að setja á stofn Norðanátt, sem mun gegna lykilhlutverki í því að koma öflugum hugmyndum á næsta stig."

Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Eims:

„Samstarfið, sem er í anda klasa stefnunnar, er mikilvægur liður í að byggja upp samheldið teymi sérfræðinga á svæðinu sem allir hafa það markmið að styðja við bakið á frumkvöðlum og nýsköpun og þannig verðmætasköpun á Norðurlandi. Við erum sterkari saman og trúum því að við séum á fyrstu metrunum að skapa kröftugt og eftirsóknarvert umhverfi nýsköpunar á svæðinu þar sem við getum nýtt auðlindir okkar til fullnustu, stutt frumkvöðla við uppbyggingu viðskiptatækifæra og dregið að sérfræðinga sem upplifa svæðið sem áhugaverðan kost til að setjast að á. Allt í samvistum við náttúruna, fólkið og auðlindirnar sem við erum svo rík af. Framtíðin er björt á Norðurlandi.“

Teymið á bak við Norðanátt:

Stikkorð: Vaxtarrými Norðanátt