Fyrstu 77 íbúðirnar í nýja hverfinu við Kirkjusand verða auglýstar strax í vor og geta verið afhentar strax um næstu áramót að sögn Jónasar Þórs Jónassonar, framkvæmdastjóra 105 Miðborgar sem sér um uppbygginguna. Í hverfinu verður um þriðjungur 50 til 80 fermetra íbúðir, þriðjungur 80 til 110 fermetrar og svo þriðjungur um 110 til 150 fermetrar, þar af sex um 150 fermetrar, og svo þrjár stærri en það.

Fyrrnefndar íbúðir eru á svokölluðum reit D, og ber húsaþyrpingin nafnið Stuðlaborg, en næstu 52 íbúðirnar, sem verða á reit C í Sólborg, fara í sölu í sumar eða haust og verða tilbúnar til afhendingar eftir um ár, í febrúar eða mars 2020. Eftir tvö til þrjú ár er loks er stefnt að því að um 25 til 30 íbúðum á reit F, sem er næst Kringlumýrarbrautinni, verði tilbúnar, en þar verður einnig atvinnuhúsnæði.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er Íslandsbanki svo kominn í samstarf við Reykjavíkurborg um að gera nýtt deiliskipulag fyrir reitinn þar sem höfuðstöðvar bankans voru áður til húsa, en þar er stefnt að því að byggt verði upp sams konar blönduð byggð og er á reitunum við hliðina þar sem skipulagðar hafa verið 300 íbúðir.

Kjartan Smári Höskuldsson framkvæmdastjóri Íslandssjóða, þar sem fagfjárfestasjóðurinn 105 Miðborg er í rekstri, segir að við alla hönnun hverfisins sé horft til þess að nýta sem best birtu og útsýni sem og að draga úr vindi.

„Þegar verið er að vinna með birtu, útsýni og svona þá skiptir máli hvort þú sért á norður- eða suðurgafli svo allar hæðirnar eða hliðar húsanna verða ekki eins,“ segir Kjartan Smári.

„Við erum að vinna með mjög flottum hönnuðum, bæði innlendum og erlendum, og er lagt upp með að hver íbúð sé hönnuð svolítið út af fyrir sig þar sem við erum að hugsa út í flæðið í hverri íbúð. Þetta er auðvitað einstaklega flott staðsetning og erum við því ekkert að byggja ódýrustu íbúðir í borginni, en það verða þarna samt sumar töluvert ódýrari heldur en aðrar á góðum stöðum sem hafa verið að koma inn á markaðinn upp á síðkastið.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .