Kreditkort hf og American Express tilkynntu í dag um útgáfu fyrstu American Express kreditkortanna sem gefin eru út á Íslandi. Þetta kemur þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu.

„Premium Icelandair American Express kortið, Classic Icelandair American Express kortið og Business Icelandair American Express kortið eru þróuð með það að markmiði að henta ferðavenjum og lífsstíl íslendinga og íslenskra fyrirtækja,” segir í tilkynningunni.

Þá segir að nýju kortunum fylgja fríðindi og möguleikar sem ekki hafa áður staðið íslenskum kreditkortahöfum til boða. Í fyrsta skipti safna meðlimir vildarpunktum í gegnum veltu korta í útlöndum. Með nýju kortunum er hægt að safna vildarpunktum mun hraðar en áður hefur þekkst hér á landi.   „Við erum stolt af því að bjóða okkar viðskiptavinum og öllum íslendingum upp á fyrstu American Express kreditkortin í samstarfi við Icelandair,” segir Viktor Ólason, framkvæmdastjóri Kreditkorts hf.

„Icelandair American Express kortin sem Kreditkort gefur út marka tímamót á þessu sviði á Íslandi og aldrei áður hefur verið boðið upp á að safna ferðapunktum svo hratt hér á landi. Með þessu erum við að hefja samstarf þriggja virtra og öflugra vörumerkja og það eru neytendur sem njóta góðs af.“

Fleiri vildarpunktar á styttri tíma

American Express kreditkortin hafa mikla sérstöðu á íslenska markaðnum, segir í tilkynningunni. Með nýju kortunum er hægt að safna vildarpunktum tvisvar til fimm sinnum hraðar en áður hefur þekkst.

Meðlimir Classic og Premium Icelandair American Express kortanna geta áunnið sér einn félagamiða árlega. Premium og Business meðlimir hafa rétt á því að ferðast með meiri farangur og aðgang að ókeypis bílastæðum við Leifsstöð. Þessu til viðbótar fá allir meðlimir aðgang að sérstökum tilboðsklúbbi American Express um allan heim sem býður upp á afslætti og tilboð á margvíslegum vörum og þjónustu.

Með öllum kortunum fylgja margvísleg fríðindi og þjónusta sem American Express veitir korthöfum um allan heim. Þar á meðal má nefna:

  • Sólarhringsþjónusta á Íslandi og hvar sem er í heiminum í gegnum þéttriðið útibúakerfi American Express Travel Service sem starfrækir 2.200 skrifstofur um allan heim.
  • Sérsniðin tilboð og afslættir til meðlima jafnt innanlands sem utan í gegnum sérstakt vildarkerfi sem heitir American Express Selects. Meðlimum Business Icelandair American Express kortsins standa til boða afslættir og sérstök tilboð á vörum og þjónuustu sem tengist viðskiptum, í gegnum Business Savings Plan hjá American Express.
  • Aðgangur að vönduðum og margvíslegum tryggingum sem meðal annars fela í sér nokkrar nýjungar en þær eru vegna tafa á flugvöllum og vegna yfirbókunar. Einnig verður boðið upp á innkaupakaskó. Þar er um að ræða vernd sem gildir í 30 daga frá kaupum á hlut og bætir tjón sem rekja má til skyndilegs og ófyrirsjáanlegs utanaðkomandi atviks.