Ísland
Ísland
© AFP (AFP)
Fyrstu drög að nýrri stjórnarskrá hafa verið birt á vef stjórnlagaráðs . Drögin sem nú liggja fyrir eru afrakstur vinnu ráðsins frá því það hóf störf 6. apríl síðastliðinn. Fram undan eru umræður á ráðsfundum um drögin og má gera ráð fyrir að frumvarpið taki nokkrum breytingum við þær. Stefnt er að því að skila verkinu til forseta Alþingis 29. júlí.

Frumvarpsdrög Stjórnlagaráðs samanstanda af 111 stjórnarskrárákvæðum í tíu köflum og hefur uppbyggingu hennar verið breytt nokkuð frá því sem nú er. Mikilvægasta breytingin felst í því að drögin hefjast á aðfaraorðum, mannréttindakaflinn hefur verið færður framar, eða næst á eftir undirstöðum. Með því er lögð áhersla á mikilvægi þess að tryggja vernd borgaranna fyrir ofríki stjórnvalda en ekki síður undirstrikað að allt vald komi frá þjóðinni. Þá hefur kaflinn um Alþingi verið færður fram með hliðsjón af áherslu ráðsins á að styrkja störf löggjafarvaldsins.