Hjónin Jón Bjarman og Hanna Pálsdóttir voru gerð að fyrstu heiðursfélögum AUS (Alþjóðlegra ungmennaskipta) á Íslandi á aðalfundi samtakanna sem haldinn var nýlega. Efnt var til veislu í kjölfar fundarins þar sem lesnar voru kveðjur til hjónanna, utan úr heimi jafnt sem frá Íslendingum. Auk þess tóku  fyrrum skiptinemar og sjálfboðaliðar til máls og rifjuðu upp góð og uppbyggileg samskipti við Jón og Hönnu. Þá færðu samtökin þeim blóm og viðurkenningarskjal að gjöf.

AUS á Íslandi er hluti af rótgrónum alþjóðlegum samtökum sem heita  ICYE (International Cultural Youth Exchange). Samtökin hafa það meginhlutverk að auka skilning milli þjóða og brúa bil milli menningarheima með ungmennaskiptum. Þau hjónin hafa komið að starfsemi samtakanna með einum eða öðrum hætti í yfir 30 ár og hafa átt stóran þátt í árangri þeirra. Séra Jón Bjarman vann um tíma sem æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar og var það í gegn um það starf sem þau hjónin höfðu fyrst afskipti af samtökunum. Jón tók einnig þátt í alþjóðastarfi ICYE og var forseti alþjóðasamtaka ICYE um árabil. Í kjölfar þess var  hann kjörinn heiðursforseti  ICYE Federation, ævilangt.