Fyrstu hraunhellunni var lyft í dag við sérstaka athöfn vegna stækkunar upplifunarsvæðis og byggingar nýs hótels Bláa Lónsins. Edvard Júlíusson, varaformaður stjórnar Bláa Lónsins, lyfti hraunhellunni ásamt Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, segir uppbygginguna vera táknræna fyrir áherslu Bláa lónsins um að styrkja stöðu sína sem einstakur viðkomustaður ferðamann a heimsvísu. Heildarkostnaður vegna framkvæmdarinnar nemur sex milljörðum króna og mun mannvirki Bláa lónsins tvöfaldast að stærð. „Heildarstækkun á núverandi- og nýju upplifunarsvæði ásamt hóteli  nemur um 10.000 fm.  Á framkvæmdatíma sem áætlað er að verði tvö ár munu 150 starfsmenn starfa við verkefnið,“ segir í tilkynningu frá Bláa Lóninu.


"Það er mér sannarlegt gleðiefni að vera viðstödd hér í dag þegar framkvæmdir hefjast við stækkun upplifunarsvæðis og byggingu nýs hótels. Það hefur verið gaman að fylgjast með vextinum hér í Bláa Lóninu á undanförnum árum. Hér er öll umgjörð til mikillar fyrirmyndar og sú viðbót sem er verið að byrja á í dag styrkir ferðaþjónustu á þessu svæði og í raun á Íslandi öllu. Ég óska aðstandendum Bláa Lónsins til hamingju með þennan mikilvæga áfanga," segir Ragnheiður Elín.