*

laugardagur, 18. janúar 2020
Innlent 26. júní 2017 18:25

Fyrstu kaupendum fjölgar á Suðurnesjum

Fyrstu kaupendur hafa drifið áfram íbúðamarkaðinn á Suðurnesjum. Yfir fjórðungur kaupenda á Suðurnesjum eru fyrstu kaupendur.

Pétur Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Fyrstu kaupendur hafa drifið áfram íbúðamarkaðinn á Suðurnesjum. Yfir fjórðungur kaupenda á Suðurnesjum eru fyrstu kaupendur á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017. Árið 2016 var hlutfallið yfir 30%. Þessar tölur eru meðal þess efnis sem má finna í skýrslu sem að Reykjavík Economics vann fyrir Íslandsbanka um fasteignamarkaðinn á Suðurnesjum. 

Þar kemur fram að eitt af þeim batamerkjum sem horft er til þegar heilbrigði íbúðamarkaða er metið, er hvort að fyrstu kaupendum hefur fjölgað eða ekki. Hópurinn fyrstu kaupendur er sá sem að heldur flæðinu gangandi á húsnæðismarkaðnum. 

Í skýrslunni kemur skýrt fram að fyrstu kaupendur eða leigjendur er stærsti hópurinn á Suðurnesjum. Ef horft er til hópsins sem er 20 til 29 ára, þá voru alls 3.816 manns í þeim hópi um síðustu áramót og samtals eru 3.693 í næsta hópi fyrir ofan sem er á aldursbilinu 30 til 39 ára. 

Gætu flust á brott

Þó er sleginn ákveðinn varnagli í skýrslunni. Þar er tekið fram að óhagstætt kynjahlutfall er í yngstu aldurshópunum þar sem karlar eru fleiri en konur. „Karlar gætu freistast til að flytja brott af svæðinu í makaleit og því gæti íbúðaþörfin verið minni. Einnig verður að taka tillit til þess að ungt fólk á Suðurnesjum gæti leitað inn á höfuðborgarsvæðið annað hvort til að mennta sig eða fá starf við hæfi,“ segir í skýrslunni. 

Til að tryggja vöxt svæðisins er því mikilvægt að huga að fjölbreyttum atvinnutækifærum sem að tryggja að ungt fólk vilji búa og starfa á svæðinu að mati skýrsluhöfunda, en eins og kemur fram í skýrslunni er vinnumarkaðurinn fjölbreytilegur á Suðurnesjum, til dæmis í kringum starfsemi Keflavíkurflugvallar.