*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 20. maí 2015 15:05

Fyrstu kaupendum fjölgar

Aðstæður eru góðar á fasteignamarkaði en kjarasamningar varpa skugga á ris hans. Frá þessu er greint í nýrri skýrslu Reykjavík Economics.

Kári Finnsson
Haraldur Guðjónsson

Ef ekki væri fyrir fjármagnshöft og undirliggjandi verðbólguþrýstings vegna kjarasamninga, væri ástandið nokkuð gott á íslenskum íbúðamarkaði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Reykjavík Economics sem unnin er fyrir Íslandsbanka en hún verður kynnt á opnum fundi í útibúi bankans á Granda í dag.

Í henni kemur einnig fram að þrátt fyrir takmarkað framboð á íbúðahúsnæði og slæmrar eiginfjárstöðu ungs fólks á Íslandi hefur hlutfall fyrstu kaupenda af öllum kaupsamningum aukist þó nokkuð frá hruni. 

Máli sýnu til stuðnings vísa skýrsluhöfundar í samantekt Velferðarráðuneytisins um fjölda þeirra sem keyptu sitt fyrsta húsnæði frá árinu 2008 til 24. mars á þessu ári. Þar kemur fram að hlutfall fyrstu kaupenda af öllum kaupsamningum sem gerðir voru á tímabilinu hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 2009. Á fyrsta fjórðungi þessa árs var hlutfall fyrstu kaupenda á landinu öllu um 23% og um 20% á höfuðborgarsvæðinu. Samsvarandi hlutfall árið 2009 var 7,3% á landinu öllu og 6,3% á höfuðborgarsvæðinu. Ekki eru fyrirliggjandi nákvæmar upplýsingar um aldur fyrstu kaupenda hér á landi en Íslandsbanki lét Capacent Gallup nýlega framkvæma könnun á því. Þar kom í ljós að fyrstu kaupendur eru að meðaltali 29,2 ára gamlir sem er nálægt meðaltali í Bretlandi.

Nánar er fjallað um niðurstöðu skýrslunnar í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu í fyrramálið með því að smella á hlekkinn Tölublöð.