Hlutfall fyrstu kaupenda á fyrstu sex mánuðum ársins hefur ekki verið hærra svo langt aftur sem gögn ná. Á fyrsta ársfjórðungi var hlutfall fyrstu kaupenda af fasteignaviðskiptum á landinu nærri 30% og á öðrum ársfjórðungi um 28%, en þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

HMS segir þetta vera sérstaklega áhugavert þar sem atvinnuöryggi hefur minnkað á tímum Covid, sérstaklega fyrir ungt fólk. Hins vegar gætu auknar heimildir til nýtingar á séreignarsparnaði til fasteignakaupa og skarpar lækkanir á vöxtum undanfarna mánuði hafa auðveldað þessum hópi að festa kaup á eigin húsnæði.

Samkvæmt spurningakönnun, sem Zenter framkvæmdi, telja 9,6% svarenda líklegt eða öruggt að þeir kaupi sér fasteign á næstu 6 mánuðum og hefur hlutfallið ekki verið hærra, að minnsta kosti, síðan á haustmánuðum 2017 en lengra aftur ná kannanirnar ekki.

Áhuginn hefur aukist sérstaklega meðal fólks sem býr í foreldrahúsum en 26% þeirra virðist vera í fasteignahugleiðingum samanborið við 12% í byrjun árs. Þá virðist einnig nokkuð hátt hlutfall leigjenda vera í fasteignahugleiðingum um þessar mundir. HMS telur að stór hluti fólks í þessum hópum hafi ekki átt fasteign áður og munu því teljast til fyrstu kaupenda þegar það kaupir sér fasteign.

Meðfylgjandi mynd sýnir hvernig hlutfall fyrstu kaupenda hefur þróast frá árinu 2010. Myndin er tekin úr mánaðarskýrslu HMS fyrir ágúst 2020.

Hlutfall fyrstu kaupenda - HMS
Hlutfall fyrstu kaupenda - HMS