Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir í samtali við Morgunblaðið þrengingu Seðlabanka Íslands á fjárfestingarkostum aflandskrónueigenda með því að fækka kostum á undanþágulista vegna gjaldeyrishafta vera fyrstu skrefin að losun haftanna.

„Með þessu er verið að þrengja að valkostum fyrir aflandskrónueigendur sem hafa í hyggju að færa sig milli fjárfestingarkosta," segir Bjarni en ítrekar að ekki sé verið að neyða nokkurn til að selja og færa sig milli fjárfestingarleiða. „Tilgangur með breytingunum er að búa í haginn fyrir frekari skref að losun fjármagnshafta. Þau felast m.a. í því að eigendum þessara krónueigna verða boðnir fjárfestingarkostir sem draga verulega úr líkum á óstöðugleika við losun fjármagnshafta."

Seðlabanki Íslands birti í gær breytingar á undanþágulistum sínum og takmarkast undanþágulistarnir nú við ríkisvíxla og eitt ríkisskuldabréf, nánar tiltekið RIKB 15 0408. Eigendum þeirra flokka skuldabréfa sem ekki njóta lengur undanþágu er heimilt að selja sína fjármálagerninga en geta eingöngu fjárfest eftir undanþágulista Seðlabankans.

Í dag metur Seðlabankinn það svo að aflandskrónueigendur geymi um 45% snjóhengjunnar í skuldabréfum sem eru á gjalddaga árið 2019 eða síðar. Þau skuldabréf geta gengið kaupum og sölum og eru því ekki örugg vörn fyrir því að aflandskrónueigendur geti losað fjármagn sitt á skömmum tíma. Aðgerðin sem tilkynnt var um í gær er til þess gerð að fækka kostum þeirra sem líklegir eru til að vilja flytja fjármagn frá Íslandi þegar höftum verður lyft.