Fyrstu skref í afnámi gjaldeyrishafta gætu verið tekin fyrir 20. maí næstkomandi, með því að bjóða upp gjaldeyri fyrir aflandskrónur. Þetta hefur Bloomberg fréttamiðill eftir Má Guðmundssyni, seðlabankastjóra. Hann segist vongóður um að fyrsta útboðið verði auglýst innan tveggja vikna, mögulega næsta föstudag. Unnið sé að lokafrágangi.

Már sagði að fjárfestar verði gefnar tvær vikur til þess að leggja fram tilboð, að minnsta kosti í fyrsta útboðinu. Hann sagði að með tímanum sé líklegt að þeim fjölgi og verði stærri. Seðlabankinn vilji með fyrsta útboðinu prófa kerfið og því verði ekki um háar fjárhæðir að ræða.

Í áætlun um afnám gjaldeyrishafta, sem var gefin út í mars síðastliðnum, kom fram að Seðlabankinn muni á næstu mánuðum standa fyrir röð gjaldeyrisútboða þar sem markmiðið er að leiða saman eigendur erlends gjaldeyris sem vilja kaupa aflandskrónur til að fjárfesta í langtímaskuldabréfum ríkissjóðs, eða innlendu atvinnulífi og eigendur aflandskróna sem vilja selja þær fyrir erlendan gjaldeyri.