Bókin Fyrstu skref í fjármálum eftir Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóra Almenna lífeyrissjóðsins, kom nýlega út á grísku, en Grikkir hafa hug á að bæta fjármálalæsi ungmenna þar í landi.

Fyrstu skref í fjármálum kom fyrst út hér á landi árið 2017 en í ársbyrjun 2020 kom hún út í endurbættri útgáfu. Flestir grunnskólar landsins hafa notað bókina og fjármálafræðsla Fjármálavits til grunnskólanema hefur byggt á bókinni.

Í viðtali við Morgunblaðið segir Gunnar bókina hafa verið flókna í vinnslu, enda byggi íslenska útgáfan á aðstæðum hérlendis. Bókin var einnig gefin út á ensku árið 2019, en sú útgáfa er alþjóðleg og efnið því ótengt einstökum löndum. Gunnar segir efni grísku útgáfunnar hafa verið aðlagað að aðstæðum í Grikklandi, hann hafi skrifað efnið á ensku en það svo verið þýtt á grísku eftir að aðlögun efnisins var samþykkt.

Fram kemur að gríska útgáfan sé bæði gefin út í bókarformi og rafrænt. „Til að byrja með hafa Grikk­ir lagt áherslu á að koma henni til kenn­ara, viðbrögðin hafa verið mjög já­kvæð og það er von­andi að hún nýt­ist til gagns við að efla fjár­mála­læsi," seg­ir Gunn­ar í viðtalinu.

Gunnar segir það hafa verið fróðlegt að kynnast fjármálaástandinu í Grikklandi af eigin raun við vinnslu útgáfu bókarinnar. Lífeyrissjóðakerfið þar í landi sé ólíkt hinu íslenska þar sem Grikkir leggi meira upp úr gegnumstreymiskerfi á meðan hér á landi sé byggt á sjóðstreymiskerfi.

Að sögn Gunnars hafa ýmsar þreifingar átt sér stað hvað varðar frekari þýðingar á bókinni, en hann telur kórónuveirufaraldurinn hafa seinkað ákvörðunartöku í þeim efnum.