Fyrstu skrefin í átt til kjarnorkuafvopnunar Norður-Kóreu voru stigin í gær, þegar þátttakendur í hinum svokölluðu sex-ríkja viðræðum, Bandaríkjamenn, Kínverjar, Suður-Kóreumenn, Japanar og Rússar, komust að samkomulagi við stjórnvöld í Pjongjang um lokun kjarnorkustöðva gegn efnahagsaðstoð. Í þeirri aðstoð felast meðal annars matargjafir og gríðarlegt magn af eldsneyti. Viðræður ríkjanna vegna þróunar Norður-Kóreumanna á gereyðingarvopnum hafa staðið yfir með hléum í meira en þrjú ár. Stjórnmálaskýrendur telja að með þessu samkomulagi, þar sem flestum stærstu spurningunum er varða kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu eru látnar bíða betri tíma, hafi öll ríkin sem tóku þátt í samningaviðræðunum náð að halda andliti sínu - að minnsta kosti til skemmri tíma.

Í kjölfar þess að stjórnvöld í Pjongjang sprengdu fyrstu kjarnorkusprengju sína í byrjun október í fyrra, myndaðist mikil samstaða meðal stórveldanna um að beita Norður-Kóreumenn hörðum þvingunaraðgerðum. Þessar aðgerðir báru þann árangur að stjórnvöld landsins voru þvinguð á ný að samningaborðinu. Nauðsyn þess að finna lausn á málinu er talin afar brýn, en talið er að stjórnvöld í Pjongjang ráði yfir sex til tólf kjarnavopnum. Þessar viðræður hafa nú skilað árangri, en samkvæmt helstu atriðum samkomulagsins er gert ráð fyrir því að stjórnvöld Norður-Kóreu hætti innan sextíu daga allri starfsemi í Yongbyon kjarnorkuverinu, þar sem helsti kjarnakljúfur þess er staðsettur. Um leið og alþjóðlegir eftirlitsmenn staðfesta að lokunarferli kjarnorkuversins sé hafið munu stjórnvöld í Pjongjang fá fimmtíu þúsund tonn af eldsneyti og matvælaaðstoð. Gríðarlegur orkuskortur er í landinu og hungursneyð tíð.

Frekari efnahagsaðstoð upp á 950.000 tonn af eldsneyti verður veitt stjórnvöldum ef þau gangast undir þær langtímaskuldbindingar um að veita upplýsingar um allar kjarnorkuáætlanir sínar og að auki að leggja niður alla kjarnorkustarfsemi sína.

Aðalsamningamaður Bandaríkjanna í viðræðunum, Christopher Hill, sagði að samkomulagið væri "aðeins fyrsta skrefið í átt til fullrar kjarnorkuafvopnunar Norður-Kóreu. Við höfum ekki enn lokið okkar verki.2

Hluti af samkomulaginu felst í því að stefnt verður að tvíhliðaviðræðum á milli bandarískra og norðurkóreskra stjórnvalda og eiga þær að leiða til þess að hægt verði að koma á eðlilegum stjórnmálasamskiptum milli ríkjanna tveggja. Krafan um tvíhliða viðræður við Bandaríkjamenn hefur lengi verið eitt helsta samningsmarkmið Kim Jong Il,  leiðtoga Norður-Kóreu.


Menn eru þó misbjartsýnir á að hið nýja samkomulag sé líklegt til að skila árangri. Margir minnast fyrri reynslu af samningaviðræðum við norðurkóresk stjórnvöld. Árið 1994 gerði ríkisstjórn Bill Clintons, þáverandi Bandaríkjaforseta, sambærilegt samkomulag við stjórnvöld í Pjongjang. Norður-Kóreumenn fengu þá fimm hundrað þúsund tonn af eldsneyti gegn því að gefa kjarnorkuáform sín upp á bátinn. Þeim samningi var rift í kjölfar þess að stjórnvöld í Washington D.C. sökuðu Norður-Kóreumenn um að nota hann sem skálkaskjól og standa ekki við samningsheitin. Árið 2002 varð Norður-Kórea síðan fyrsta ríkið til að segja upp alþjóðasamningnum gegn útbreiðslu kjarnavopna (NPT-samningurinn) og tilkynntu stjórnvöld í framhaldinu að þau réðu yfir kjarnorkusprengju. Enn einn samningurinn var gerður í september árið 2005. Hann varð fljótlega að engu vegna deilna um framkvæmd hans og aðgerða bandarískra stjórnvalda gegn stjórnvöldum í Pjongjang vegna ásakana um víðtæka fölsun á Bandaríkjadölum.

Sökum reynslunnar af samningagerð við stjórnvöld í Pjongjang hafa menn skiptar skoðanir um hvort að samkomulagið sé einhvers virði. John Bolton, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og þekktur talsmaður harðlínustefnu gagnvart útlagaríkjum, segir að ekki eigi að veita Norður-Kóreumönnum umbun með því að gefa þeim þúsundir tonna af eldsneyti í skiptum fyrir að hætta aðeins við hluta kjarnorkuáætlunar sinnar. "Það sendir einmitt röng skilaboð til annarra ríkja sem vilja koma sér upp kjarnavopnum," hefur CNN fréttastofan eftir Bolton.

Simon Peres, aðstoðarutanríkisráðherra Ísraels, segir hins vegar að niðurstaða sex-ríkja viðræðnanna um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu sýndi að stjórnmála- og efnahagslegar þvinganir geti skilað árangri. Peres hvatti alþjóðasamfélagið til samstöðu um að grípa til samskonar refsiaðgerða gegn Írönum vegna kjarnorkuáforma stjórnvalda í Teheran, en Peres sagði að ef álíka mikil samstaða myndi nást á meðal stórvelda heimsins í málefnum Írans, væri mögulegt að knýja fram stefnubreytingu hjá írönskum ráðamönnum.


Stjórnmálaskýrendur benda á að markmið Kim Jong-Il með kjarnorkusprengjunni sem Norður-Kóreumenn gerðu síðastliðinn október hafi gengið eftir; honum hefur bæði tekist að fá þá efnahagsaðstoð sem stjórnvaldi hans er nauðsynlegt og fyrirheit um tvíhliða viðræður við bandarísk stjórnvöld. Kim Jong-Il gerði sér grein fyrir því að vegna óvenju veikrar stöðu Bandaríkjamanna á alþjóðavettvangi um þessar mundir væri ólíklegt að honum yrði refsað með hernaðaraðgerðum - þvert á móti væri líklegt að honum yrði boðin einhvers konar aðstoð til að fá Norður-Kóreu til að hætta kjarnorkuáætlun sinni.