Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, hringdi Kauphallarbjöllunni svokölluðu þegar sértryggð skuldabréf bankans voru tekin til viðskipta á markaði í morgun. Bjöllunni hefur ekki verið hringt áður við skráningu skuldabréfs.

Tilefnið nú er ærið en þetta var í fyrsta skiptið sem fjármálafyrirtæki á Íslandi gefur út skuldabréf eftir hrunið.

Í uppgjörsfrétt Íslandsbanka segir um skuldabréfið að með því sé stigið mikilvægt skref í enduruppbyggingu fjármálamarkaðar hér á landi. Innlán hafa verið undirstaða fjármögnunar bankans frá stofnun hans í október 2008 en samkvæmt fjármögnunarstefnu Íslandsbanka er gert ráð fyrir aukinni breidd í fjármögnun hans.

Skuldabréfin eru til fimm ára og hljóða upp á fjóra milljarða króna að nafnvirði. Þau bera fasta 3,5% árlega vexti sem greiðast tvisvar á ári, 7. júní og 7. desember fram að lokadegi. Fyrsti vaxtadagur er í júní á næsta ári en lokadagurinn er 7. desember árið 2016. Höfuðstóllinn er verðtryggður og verður hann endurgreiddur með einni greiðslu 7. desember 2016