*

sunnudagur, 12. júlí 2020
Innlent 28. febrúar 2020 12:44

Fyrstu Teslurnar afhentar

Nýopnað Tesla útibú hér á landi afhendir sína fyrstu bíla í dag. Mörg hundruð bílar hafa þegar verið pantaðir.

Júlíus Þór Halldórsson
Flestir bílar sem pantaðir hafa verið munu vera af gerðinni Model 3, enda langtum ódýrasti bíll fyrirtækisins, en hann fæst frá 5 milljónum króna.
Aðsend mynd

Um þessar mundir er útibú rafbílaframleiðandans Tesla – sem opnaði hér á landi síðastliðinn september – að afhenda sína fyrstu bíla, en þeirra hefur verið beðið með þónokkurri eftirvæntingu síðastliðnar vikur og mánuði. Bílarnir komu til landsins á þriðjudag.

Fyrir eru um 150 Tesla bílar á götum landsins, sem keyptir voru erlendis frá, en viðbúið er að fjöldi þeirra margfaldist á næstu misserum með afhendingu þeirra hundruða bíla sem útibúið nýopnaða hefur þegar fengið pantanir fyrir. Útibúið hérlenda talaði lengst af um að afhendingar hæfust í mars. Því tekst því naumlega að bæta um betur með afhendingunum í dag, á síðasta virka degi febrúarmánaðar.

Munurinn á því að kaupa Teslu af hérlendu útibúi samanborið við innflutning erlends bíls er nokkur. Fyrir það fyrsta fást þeir á betra verði þannig, en auk þess sér útibúið um að þjónusta bílana. Áður hafði þurft að senda þá aðkeyptu aftur úr landi til að sinna viðhaldi.

Loks fylgja því smávægilegri hlutir á borð við að bíllinn er strax skráður hérlendis, sem til dæmis hefur áhrif á ljósastillingar eins og Fréttablaðið greindi nýlega frá, enda reglur um notkun ljósabúnaðar hér á landi frábrugðnar því sem þekkist víða annarsstaðar.

Stikkorð: Tesla