Búist er við að í byrjun júní verði lokið vinnu matsnefndar við að fara yfir tilboð þeirra þriggja hópa sem skiluðu inn fyrstu tilboðum um hönnun, uppbyggingu og rekstur tónlistarhúss og hótels við Austurhöfnina í Reykjavík. Þátttakendurnir Fasteign, Portus og Viðhöfn, lögðu fram frumhugmyndir sínar í janúar og síðan fyrstu tilboð í byrjun maí. Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar, sagði að gert væri ráð fyrir að tveir af þessum hópum verði beðnir um lagfæringar og frekari þróun á sínum tilboðum. Ráðgert er að hefja framkvæmdir á svæðinu undir lok næsta árs.

Aðferðarfræðin sem notuð er við að koma samningnum á eru samningskaup (negotiated procedure). Gert er ráð fyrir að samningsaðilinn fjármagni, hanni, byggi, eigi og reki bæði tónlistarhúsið, ráðstefnumiðstöðina og hótelið og fái styrk frá yfirvöldum. Tillaga að upphæð styrksins hefur ekki verið lögð fram, en eldri áætlanir miðuðu við tæpar 7000 milljónir króna á 25 árum auk vaxta. Í myndinni hefur þó verið að samningstíminn verði 35 ár, en að þeir aðilar sem leggja fram styrkinn eigi forkaupsrétt hvenær sem er og auk þess kauprétt að 25 árum liðnum.

Í Fasteignarhópnum eru Eignarhaldsfélagið Fasteign hf., fasteignarekstrarfélag í eigu Íslandsbanka og nokkurra sveitarfélaga, og Klasi hf., fasteignarekstrarfélag í eigu Íslandsbanka. Arkitektar: Schmidt, Hammer & Lassen a/s, sem m.a. teiknuðu Svarta demantinn, nýbyggingu Konunglega bókasafnsins í Kaupmannahöfn og 101 Skuggahverfi og Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar. Hönnunarstjórn og ráðgjöf: Línuhönnun, Teiknistofa Halldórs Guðmundssonar og VSÓ. Sérstök ráðgjöf: Bernard Engle, John Cole ofl. Stýriverktaki: Ístak/PIHL.

Í Portus Group hópnum eru Landsafl hf., fasteignarekstrarfélag í eigu Landsbanka Íslands, Nýsir hf. og Íslenskir aðalverktakar hf. Arkitektar: Henning Larsens Tegnestue, sem m.a. teiknaði óperuna í Kaupmannahöfn sem tekur til starfa í miðjum næsta mánuði, og Batteríið-arkitektar. Hönnunarstjórn: Baatteríið, HLT og Ramböll. Verkefnisstjórn: Landsafl, Nýsir og Íslenskir aðalverktakar, sem eru stýriverktaki.

Í Viðhöfn eru Sparisjóðabanki Íslands, Festing ehf., Eykt ehf. og Höfðaborg ehf. Arkitektar: Ateliers Jean Nouvel, sem m.a. hafa teiknað tónlistar- og ráðstefnumiðstöð í Lucerne í Sviss. Þeim til aðstoðar er teiknistofan T.ark. Tæknilegur ráðgjafi: Ove Arup Partnership Ltd. Hönnunarstjórn: Teiknistofan Óðinstorgi, Ingimundur Sveinsson arkitekt og Eykt. Verkefnisstjórn: Hjörleifur Stefánsson arkitekt.

Fjórði þátttakandinn, Multiplex og Foster & Partners, ákvað að hætta þátttöku í verkefninu.