Miðað við fyrstu tilboð í bresku matvörukeðjuna Iceland Foods hljóðar verðmæti hennar upp á 1,3 til 1,5 milljarða punda, á milli 240 og rúmra 270 milljarða íslenskra króna. Miðað við það er verðmæti 66% eignarhlutar skilanefndar Landsbankans í Iceland Foods á milli 158 og 178 milljarðar króna.

Skilanefnd Glitnis á 10 prósenta hlut til viðbótar og nemur verðmæti hans miðað við tilboðin í fyrstu lotu 24 til 27 milljörðum íslenskra króna.

Frestur til að skila inn óskuldbindandi tilboðum í hluti skilanefnda gömlu bankanna rann út í gær.

Í netútgáfu breska viðskiptablaðsins Financial Times í dag kemur fram að stórmarkaðirnir Wm MOrrison og Asda hafi lýst yfir áhuga og hugsanlega matvörufyrirtækið Farmfoods. Þá segir að einkaframtakssjóðirnir TPG, Bain, Blackstone og BC Partners hafi verið á meðal þátttakenda í þessari fyrstu lotu tilboðsferlisins. Malcolm Walker mun ekki hafa verið á meðal þeirra sem lagði fram tilboð í hluti skilanefndanna. Hann og stjórnendur verslunnarinnar eiga 23 prósenta hlut á móti skilanefndunum. Í krafti þessa þarf hann ekki að leggja fram tilboð fyrr en á seinni stigum en hann má jafna hæsta tilboðið.

Í Financial Times kemur sömuleiðis fram að Walker sé ekki áfjáður í að greiða meira en einn milljarð punda fyrir eftirstandandi hluti í Iceland Foods. Hann gerði það í fyrra. Skilanefnd Landsbankans taldi það hins vegar of lágt og vísaði því út af borðinu.

Skilanefnd Landsbankans lýsti því yfir á vordögum að stefnt væri að því að selja eignarhlutinn fyrir áramót.