Fyrstu umræðu um frumvarp Vilhjálms Árnasonar um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak er nú lokið. Alls tók fysta umræða um málið 17 klukkustundir.

Frumvarpið er nú farið til allsherjar og menntamálanefndar en það er á dagskrá nefndarinnar í dag. Frumvarpið nú er óbreytt frá fyrra þingi, en þá komst málið í gegnum fyrstu umræðu og var afgreitt úr nefndinni, en komst ekki til annarar umræðu.

„Það er bara spurning um hvað þarf nefndin að ræða málið mikið, frumvarpið er óbreytt milli ára. Það er venjan að mál sem hafa farið í gegnum allt ferlið áður fái styttri meðferð næst.“ segir Vilhjálmur í samtali við Viðskiptablaðið.

„Ég hef trú á því að þegar þingið og þjóðfélagið hefur rætt eitthvað mál svona mikið að þá sé það eitthvað sem þingið vilji tak afstöðu til. Það er bara lýðræðislegt að þegar þingið hefur varið svona miklum tíma til umræðu að það sé kosið um málið. Ég hef einnig ekki trú á öðru en að þegar þingmenn, sem eru alltaf að segja að það eigi að auka vægi þingmannamála gagnvart stjórnarfrumvörpum,  séu hlynntir því að þetta fari í atkvæðagreiðslu, sama hvað þeim finnst um þetta mál.“