Fjármálaráðherrar og seðlabankastjórar sjö helstu iðnríkja heims telja að hægja kunni enn frekar á bandaríska hagkerfinu, sem geti grafið undan hagvexti í heiminum. Þeir telja ennfremur að framundan sé enn frekari órói á fjármálamörkuðum. Þetta kom fram á fundi þeirra í Tokyo í gær, að því er Bloomberg greinir frá.

Áfram er talin hætta á lækkunum, þar með talið á bandaríska húsnæðismarkaðnum, auk frekari þrenginga á lánamörkuðum. Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Henry Paulson, sagði á fundinum að búast mætti við áframhaldandi sveiflum á mörkuðum á meðan markaðir væru að verðmeta áhættu upp á nýtt.

Jean-Claude Trichet segir að gripið verði til nauðsynlegra ráðstafana

Í yfirlýsingu fjármálaráðherranna og seðlabankastjóranna kemur ekkert fram um tilteknar aðgerðir, en bankastjóri Seðlabanka Evrópu, Jean-Claude Trichet, sagði að gripið yrði til allra nauðsynlegra ráðstafana til að vinna gegn „umtalsverðri leiðréttingu á markaði“. Trichet hefur haldið uppi vöxtum á evrusvæðinu og ekki viljað gefa neitt eftir í baráttunni við verðbólguna. Þessi yfirlýsing kann að vera vísbending um að sú stefna verði endurskoðuð ef aðstæður á mörkuðum versna.