Yfirmenn fjármála í ríkjum tuttugu stærstu hagkerfa heims funda nú í Sao Paulo í Brasilíu.

Leitast er við að auka samvinnu milli ríkja til þess að taka á hinum alþjóðlega efnahagsvanda. Robert Zoellick, yfirmaður Alþjóðabankans lagði sérstaklega áherslu á alþjóðlega samvinnu í ávarpi sínu á fundinum. Þjóðir heims standi nú frammi fyrir sögulegri áskorun. Fjármálakreppa leggist nú ofan á þá matvæla og eldsneytiskreppu sem vaxið hafi síðustu ár. Ekkert land hafi sloppið við áhrif þessa og færist æ fleiri ríki á ystu brún á hverjum degi.

Þáttakendur á fundinum eru svokölluð G20 ríki en uppistaða þeirra eru Iðnríkin sjö (G7 ríkin) auk BRIC ríkjanna, Brasilíu, Rússlands, Indlands og Kína. Auk þeirra eru fultrúar nokkura annara ríkja og alþjóðastofnanna.

BRIC ríkin hafa lagt til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði endurskoðaður og styrktur. Hlúa þurfi betur að þróunarríkjum og smærri hagkerfum. Kína og ríkin í Persaflóa sem hafi auðgast verulega á síðustu árum  hafi undir höndum gríðarlegt fjármagn sem gæti komið IMF til hjálpar við aðstoð smærri ríkja.

Vefsíða BBC greinir frá þessu.