Norðmenn vilja að Norðurlandaþjóðirnar fimm sameinist um fulltrúa á ráðstefnu tuttugu helstu iðnríkja heims (G20).

Þetta kom fram í frétt Aftenposten í gær en þar kom fram að Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs hefði sent kollegum sínum í Danmörku, Finnlandi, Svíþjóð og á Íslandi erindi þar sem lagt er fram að þjóðirnar komi sér saman um fulltrúa á meðal G20 ríkjanna.

„Það er ekki litið á Norðurlandaþjóðirnar sem einingu heldur sem svæði eða hóp þjóða sem eiga sameiginlega hagsmuni og hegða sér með svipuðum hætti,“ hefur Aftenposten eftir Støre í gær en blaðið gerir ráð fyrir að ríkin fjalli um málið á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem fram fer í New York í vikunni.

Þá kemur jafnframt fram að Evrópusambandið (ESB) kemur fram fyrir hönd Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur, sem öll eiga aðild að sambandinu, á fundi G20 ríkjanna en ESB er eitt þeirra „ríkja“ sem eiga fulltrúa á fundinum.

Sem kunnugt er eru Ísland og Noregur ekki aðili að ESB og hvorugt ríkið á aðild að G20. Noregur, sem er 5. stærsta olíuútflutningsríki heims, er hins vegar hins vegar 23. stærsta iðnríki heims. Í frétt Aftenposten kemur fram að saman yrðu Norðurlandaþjóðirnar í áttunda eða níunda sæti sem stærstu iðnríki heims.

Til upplýsinga eiga eftirfarandi þjóðir aðild að G20:

  • Argentína
  • Ástralía
  • Bandaríkin
  • Brasilía
  • Bretland
  • Evrópusambandið (fulltrúi 27 ríkja)
  • Frakkland
  • Indland
  • Indónesía
  • Ítalía
  • Japan
  • Kanada
  • Kína
  • Mexíkó
  • Rússland
  • S-Afríka
  • Saudi Arabía
  • S-Kórea
  • Tyrkland
  • Þýskaland