Fjármálaráðherrar G20 landanna funduðu um helgina á vorfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Lýstu ráðherrarnir yfir vonbrigðum sínum með að Bandaríkjamenn hefðu ekki enn samþykkt breytingartillögur í tengslum við regluverk AGS, sem kynntar voru árð 2010. Ákváðu fjármálaráðherrar G20 landanna að veita Bandaríkjamönnum frest út árið til að samþykkja tillögurnar. Financial Times greindi frá niðurstöðum fundanna fyrr í dag.

Breytingartillögurnar snúa að því að tvöfalda það fjármagn sem aðildarlönd greiða til AGS í formi kvótaframlaga. Eftir breytinguna yrði eigið fé AGS alls um 720 milljarðar bandaríkjadollara. Endurspegla kvótarnir hlutfallslega stærð aðildarlanda í alþjóðahagkerfinu og tekur kvótinn meðal annars tillit til landsframleiðslu og alþjóðaviðskipta landanna. Ræðst atkvæðavægi kjördæmanna innan AGS til að mynda af kvótanum. Í breytingunum frá 2010 er einnig lagt til að 6% af heildarkvótanum verði endurúthlutað til nýmarkaðsríkja auk þess sem flytja á tvær af 24 framkvæmdastjórastöðum innan AGS frá Evrópulöndum til vanþróaðra landa.

Nýmarkaðslönd ósatt með sinn hlut í AGS

Er aðgerðaleysi Bandaríkjamanna nú eina fyrirstaðan fyrir breytingunum sem lagðar voru fram fyrir fjórum árum. Obama stjórnin hefur lýst því yfir að hún styðji tillögurnar en ekki hefur tekist að koma breytingunum í gegnum bandaríska þingið þar sem þær mæta mótstöðu meðal Repúblikanaflokksins. Samþykkt G20 fjármálaráðherranna nú um helgina um að veita Bandaríkjamönnum aðeins út árið til að koma tillögunum í gegnum þingið er sögð lýsa óánægju landanna með aðgerðaleysi Bandaríkjamanna. Óljóst er þó til hvaða aðgerða verður gripið ef Bandaríkjamenn virða ekki frestinn.

Mikil ónægja er meðal nýmarkaðsríkja gagnvart kvótakerfinu þar sem hlutur landanna í heildarkvóta AGS er ekki talinn endurspegla vaxandi vigt þeirra í heimshagkerfinu. Þá hafa ríkin bent á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi veitt löndum innan Evrusvæðisins fjárhagsaðstoð á forsendum sem fátækari löndum sem eru meðlimir að stofnuninni hefði aldrei verið boðið upp á.