Hluthafar breska öryggisfyrirtækisins G4S settu sig upp á móti kaupum á danska ræstingarisanum ISS og hefur því verið fallið frá yfirtökunni. Tilkynnt var um væntanlega yfirtöku um miðjan síðasta mánuð. Hún kom Dönum á óvart enda til stóð að skrá ISS á hlutabréfamarkað.

Kaupverð átti að nema 5,2 milljörðum punda, jafnvirði um 950 milljarða íslenskra króna, og áætlaði GS4 að fjármagna kaupin með útgáfu nýs hlutafjár.

Fram kemur í tilkynningu sem G4S sendi til bresku kauphallarinnar að ástæðan fyrir andstöðu hluthafanna gegn yfirtökunnar skýrist af áhyggjum þeirra af þróun efnahagsmála. Stjórn G4S hafi rýnt í rökin og dregið þá ályktun að falla eigi frá viðskiptunum.

AP-fréttastofan bætir því við að hefðu kaupin gengið í gegn hefði sameiginlegt félag orðið eitt umfangsmesta fyrirtæki heims í sviði hreingerninga, með árlegar tekjur upp á 15,9 milljarða punda. Tekjur ISS námu 8,5 milljörðum punda í fyrra.