Fundur G7 ríkjanna, sem fram fór í Québec í Kanada um helgina, endaði með biturleika og óreiðu , en ekki náðist samkomulag milli helstu iðnríkja heims um tollamál.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lagði til að felldir yrðu niður allir tollar og aðrar viðskiptahindranir milli G7 ríkjanna. Tillagan hlaut ekki hljómgrunn á fundinum.

Ekki er langt síðan að Trump tilkynnti um tolla innflutt stál og ál til Bandaríkjanna, sem og aðra tolla á Kína, en hótanir um tollastríð hafa gengið á milli Bandaríkjanna, Kína og Evrópusambandsins undanfarna þrjá mánuði.

Eftir fundinn tilkynnti Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, að Kanada myndi leggja tolla á bandarískar vörur frá og með 1. júlí næstkomandi sem svar við Trump-tollunum svokölluðu á stál og ál frá Kanada, Evrópusambandinu og Mexíkó.

Trump brást ókvæða við á Twitter og sagði Trudeau „óheiðarlean og þróttlítinn,“ enda væru tollar Bandaríkjanna svar við 270% tollum Kanadamanna á mjólkurvörur frá Bandaríkjunum. Trudeau hafi verið „hógvær og mildur“ á G7 fundinum og þannig logið að sér. Trump segir enn til skoðunar að leggja tolla á innflutta bíla.

Jafnframt hefur Trump beðið Bandaríkjaþing um að styðja ekki sameiginlega yfirlýsingu leiðtoga G7 ríkjanna. Yfirlýsingin felur meðal annars í sér að tryggt verði sameiginlegt eftirlit og regluverk með viðskiptum milli ríkjanna. Einnig eru málsgreinar í yfirlýsingunni er lúta að Rússlandi, kjarnorkuáætlun Írans og umhverfismálum.

Utanríkisstefna Trump hefur að miklu leyti einkennst af því að bæta stöðu Bandaríkjanna í alþjóðaviðskiptum, þar sem viðskipti milli ríkja séu ekki stunduð á jafnræðisgrundvelli vegna tolla og óhagstæðra viðskiptasamninga. Þannig hafi Bandaríkin niðurgreitt utanríkisviðskipti annarra landa undanfarin ár og verið „sparibaukur sem sífellt er verið að ræna“. Athygli Trumps hefur einkum beinst að Kína í þeim efnum.

Bandaríkjaforseti fór af G7 fundinum áður en honum lauk formlega og hélt til Singapúr. Þar gengur forsetinn til sögulegs fundar við Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, á þriðjudaginn.