Fjármálaráðherrar og seðlabanakstjórar stóru lýðræðislegu iðnríkjanna, G7, hittust í Róm í gær. Þeir lýstu vilja til að vinna saman í baráttunni við heimskreppuna, en orðalag lokayfirlýsingar þeirra var almennt orðað, að því er segir í FT.

Í yfirlýsingu ráðherranna eftir fundinn sagði að G7 væri áfram staðfast í að forðast verndarstefnu, sem mundi aðeins verða til að auka á niðursveifluna. Lýst var yfir vilja til að forðast nýjar hindranir og að vinna að skjótri og metnaðarfullri afgreiðslu Doha-lotunnar, sem eru viðræður á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um frjáls viðskipti.

Sumir fulltrúarnir, sérstaklega frá Þýskalandi, lýstu þó í einkasamtölum áhyggjum af því að G7 skuli ekki hafa varað enn ákveðnar við hættunni af verndarstefnu, en fyrir fundinn höfðu ráðherrar haft uppi stór orð um að ekki mætti fara út í verndaraðgerðir líkt og á fjórða áratug síðustu aldar. Aðstoðarmenn á staðnum sögðu til að mynda að umdeildur björgunarpakki fyrir bílaiðnaðinn í Frakklandi hefði ekki verið ræddur og ekki heldur gengisfall pundsins, að því er segir í FT.

Mildari afstaða til Kína

Afstaðan gagnvart Kína var mildari en á síðasta fundi G7 í Washington í október sl. WSJ segir þetta endurspegla áhuga Vesturlanda á að fá aðstoð frá Kína við að takast á við fjármála- og efnahagskreppu heimsins. G7 ríkin hafa hingað til sakað Kína um að hafa áhrif á gengi júansins til að ná forskoti í utanríkisverslun. Nú sagði fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Timothy Geithner, að Kína léki mjög stórt hlutverk við að koma á stöðugleika í alþjóðlega fjármálakerfinu.

Þátttakendur í G7 eru fjármálaráðherrar Frakklands, Kanada, Þýskaland, Bretlands, Japan, Ítalíu og Bandaríkjanna.

Í næsta mánuði hittast fulltrúar G20, sem er útvíkkaður hópur fjármálaráðherra helstu iðnríkja. Sá fundur verður haldinn í Lundúnum og fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling, segir að fundurinn í Róm hafi verði skref í átt að þeim fundi. FT hefur eftir embættismönnum í utanríkisþjónustum G7 ríkjanna að mildari tónn gagnvart Kína hafi verið til þess ætlaður að tryggja áframhaldandi þátttöku Kína í G20 fundinum, sem verður í næsta mánuði.