Fjármálaráðherrar G8 ríkjanna segja verðhækkanir olíu og matar nú hafa tekið við af lánsfjárskrísunni sem mesta ógn við hagvöxt í heiminum.

„Aðaláhyggjuefnið núna er verðbólguáhrif sem aðallega olía en einnig matvöruverð hefur,“ hefur Bloomberg eftir Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta.

Í tilkynningu frá ráðherrunum segja þeir heimsmarkað nú mæta mótvindi. Fjármálaráðherrar Bandaríkjanna og Frakklands sögðu einnig að sterk staða Bandaríkjadals væri til hagsbóta.

Fjármálaráðherrarnir voru ekki á eitt sáttir um hvað það er sem veldur hækkun olíuverðs, þ.e. hvort hún sé til komin vegna spákaupmennsku eða hvort um sé að kenna minnkandi framboði og aukinni eftirspurn.