Helstu iðnríki heims, G8 ríkin svokölluðu, munu funda á ráðstefnu í Reykjavík með vorinu. Ráðstefnan verður þó ekki raunveruleg, en hún mun eiga sér stað í breskri sjónvarpsmynd á vegum BBC. Íslenska framleiðslufyrirtækið Pegasus kemur að framleiðslu myndarinnar og verður Reykjavík miðpunktur atburðarrásarinnar. "Þetta er mynd sem gerist að mestu hér á landi - þó svo að hún verði ekki tekin hér að mestu - hún fjallar um ráðstefnu helstu iðnríkja heims (G8) sem fram fer í Reykjavík," segir Snorri Þórisson, framkvæmdastjóri Pegasus í samtali við Viðskiptablaðið.

Handrit myndarinnar er skrifað af Richard Curtis sem skrifaði Notting Hill, About a Boy og fleiri myndir en um er að ræða rómantíska ádeilumynd með breskum húmor eins og hann gerist bestur og leikstjórinn er David Yates en hann hefur verið ráðinn til að leikstýra næstu Harry Potter myndinni.