Sjö manna hópur Íslendinga og Norðmanna hefur sett á laggirnar félagið Nordic Ignite sem mun fjárfesta í nýsköpun á hugmyndastigi (e. pre-seed) á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Félagið vill bæta umhverfi fyrir frumkvöðlafyrirtæki á fyrstu stigum til muna og er hugmyndin sú að innan fárra ára gefist almenningi kostur á að taka þátt í englafjárfestingum í kjölfar þess að hlutabréf Nordic Ignite verða tekin til viðskipta á First North hlutabréfamarkaðnum.

Ragnheiður H. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri ráðgjafarfyrirtækisins Magga, Sigurjón Magnússon, meðstofnandi Laka Power, og Ágústa Ýr Þorbergsdóttir, ráðgjafi og eigandi Navigo ráðgjafar, eru meðal stofnenda Nordic Ignite.

Ragnheiður, sem gegnir stjórnarformennsku hjá félaginu, hefur starfað í íslenska nýsköpunarumhverfinu í rúm fimmtán ár og setið í stjórnum nokkurra sprotafyrirtækja. Hún fagnar auknum fjárfestingum í nýsköpunarumhverfinu á síðustu árum en telur að bæta þurfi fjármögnunarumhverfi á frumstigum.

„Við erum orðin svolítið afturþung. Það er búið að setja töluvert fjármagn í vísisjóði sem styðja sprotafyrirtæki við að skala upp lausnir sínar, sem er frábært. Það hefur hins vegar myndast svokallaður dauðadalur fremst í ferlinu þegar frumkvöðlar eru að fara af stað með sínar hugmyndir og fyrirtækin eru að verða til,“ segir Ragnheiður.

„Það er bara of lítið af peningum þarna alveg fremst og of margir heltast úr lestinni.“

Eftir að hafa rætt um þetta vandamál við sérfræðinga í frumkvöðlaumhverfinu í Noregi kom í ljós að Norðmenn glíma við sama vandamál. Þá myndaðist áhugi á að setja á fót norrænan sjóð sem fjárfestir í fyrirtækjum á hugmyndastigi.

Fá aðstoð 30 ráðgjafa

Nordic Ignite vill ekki aðeins koma með fjármagn að borðinu fyrir sprotafyrirtækin heldur einnig bjóða fram aðstoð þrjátíu englaráðgjafa (e. angel ambassadors). Auk stofnendanna sjö hafa 23 einstaklingar, hver með sérþekkingu á sínu sviði, gengið til liðs við Nordic Ignite. Þeir þekkja allir vel til nýsköpunargeirans.

„Með þessari umgjörð geta frumkvöðlarnir innan okkar nets leitað í þekkingu þessara ráðgjafa og þeim verður raðað saman eftir þörfum. Sem dæmi erum við með einkaleyfislögfræðing, markaðssérfræðing og meira að segja „pitch-þjálfara“. Með þessu viljum við flýta öllu ferlinu,“ segir Ragnheiður.

Nordic Ignite vill að strax í upphafi verði kominn rammi og gott skipulag í kringum samþykktir, fundargerðir og stjórnarfundi hjá þeim fyrirtækjum sem verður fjárfest í.

„Að koma svona einföldum atriðum í lag hjálpar frumkvöðlafyrirtækjum verulega þegar þau vilja komast á næsta stig og sækja um aukið fjármagn.“

Sjálfbærni og jafnrétti í fyrirrúmi

Lögð verður sérstök áhersla á sjálfbærni og jafnrétti á öllum stigum ferilsins hjá Nordic Ingite. Þetta á bæði við um félagið sjálft og hjá frumkvöðlafyrirtækjunum.

„Þegar frumkvöðlarnir hafa samband við stór fyrirtæki eða fjárfesta þá eru þau spurð um sjálfbærni. Það getur reynst þeim mjög erfitt að vera komin 2-4 ár á leið með sína þróun og vera ekki búin að hugsa um svona þætti. Við ætlum að ýta því að okkar félögum að þau hugsi um sjálfbærni, stjórnarhætti og menningu alveg frá upphafi.“

Nordic Ignite hyggst einnig hafa fyrir því að ná góðu jafnvægi í jafnréttismálum. Framangreinda 30 manna teymið er skipað af fimmtán körlum og fimmtán konum. Félagið vill hafa jafnvægi á karlateymum, kvennateymum og blönduðum teymum í sínu eignasafni.

„Það er oft talað um að konur séu ekki að sækja um fjármögnun eða þátttöku á nýsköpunarvettvöngum. Það á við um á öll Norðurlöndin. Ég veit að konurnar eru þarna og þær eru ótrúlega flottar. Það þarf bara að hafa aðeins meira fyrir því að finna þær og við ætlum að gera það.“

Stefna á skráningu eftir 2-3 ár

Markmið Nordic Ignite er að félagið verði komið með rúmlega 2 milljarða króna eftir 2-3 ár. Í kjölfarið verður stefnan sett á skráningu á íslenska First North-markaðinn. Það myndi gera almenningi kleift að fjárfesta í nýsköpun á frumstigi.

„Vandamálið við fjárfestingar á frumstigum fyrirtækja í dag er að fjárfestar verða svolítið fastir inni með peninginn sinn. Þegar tekur yfirleitt 10-15 ár fyrir sprotafyrirtæki að vaxa og verða að stæðilegum fyrirtækjum. Með því að fara á markað ætlum við að veita okkar fjárfestum aukið svigrúm til að til að kaupa og selja þegar hentar.“

Auk þess gæfist kostur á að fjárfesta í dreifðu eignasafni af nýsköpunarfyrirtækjum á fyrstu stigum á Norðurlöndunum í stað þess að fjárfesta í stökum félögum, sem felur í sér ákveðna áhættudreifingu.

Með því að fara þessa leið vill Nordic Ignite einnig komast hjá því að vera bundið af takmörkuðum líftíma í fjárfestingum sínum, líkt og þekkist hjá vísisjóðum. Félagið vill geta stutt við sínar fjárfestingar til lengri tíma og sýnt sínum frumkvöðlum þolinmæði.

Íslenskir englafjárfestar oft í felum

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði